Vélsleðar

Vélsleði veitir mikið frelsi. En í þessu frelsi vélsleðamennskunnar eru einnig faldar helstu hætturnar.

 • Til að geta mætt þeim aðstæðum sem upp kunna að koma þurfa bæði sleði og ökumaður að vera í toppstandi.
 • Tiðarfar hérlendis er oft þannig að vel negldur sleði getur gert gæfumun á ferðalagi.
 • Góð veifa á stöng aftan á sleðanum nýtist vel þegar ferðast er í slæmu veðri.
 • Nauðsynlegir varahlutir þurfa að vera með í för. Aukagangur af kertum og varareim er lágmarksbúnaður.
 • Ökumaður þarf að vera líkamlega í stakk búinn til að takast á við þær aðstæður sem upp kunna að koma.
 • Skyndihjálparkunnátta þarf að vera til staðar.
 • Enginn ætti að fara einn í ferð.
 • Fylgstu með veðurspá, aðstæðum og færð.

Góður ferðafélagi er gulls ígildi, góður búnaður er nauðsyn en hvorugt skiptir nokkru máli ef góð ferðahegðan er ekki viðhöfð þegar ferðast er.

 • Halda skal hópinn en þó ekki aka svo þétt að ef eitthvað hendir fremsta mann geti sá næsti ekki stöðvað.
 • Í slæmu veðri má raða hópnum upp í tvöfalda röð og aka það þétt að menn sjái næsta mann fyrir framan og manninn sér við hlið.
 • Ljóst þarf að vera hver hefur forystu og velur leiðina en allir þurfa þó að vera tilbúnir að grípa inn.
 • Aldrei skal ofmeta eigin getu né tækjanna.
 • Nauðsynlegt er að kunna 100% á staðsetningartækin og nota sannreynda GPS punkta.
 • Betra er að bíða veður af sér í skála eða í fönn heldur en að berjast áfram í vonlausum aðstæðum.
 • Fylgstu með kennileitum og lærðu á landið.
 • Notaðu GPS tækið sem hjálpartæki en aktu ekki „meðvitundarlaus“ um fjöll og firnindi.
 • Hafðu kortið í GPS tækinu passlega „súmmað“ út eða inn, þú verður að sjá hvaða landslag er framundan.
 • Hópurinn ætti að stoppa oft og ræða saman um skipulag , þannig læra menn á hver annan og forðast misskilning.

Áfengisdrykkja og akstur vélsleða á aldrei saman

Slysavarnafélagið Landsbjörg Skógarhlíð 14, 105 Rvk. Ísland safetravel@safetravel.is +354 570-5929