Get SMS Updates

Gos á Reykjanesi

Mánudagur 12. apríl kl 16:00

Mælt er með gönguleið A í dag þar sem gasmengun mælist of mikil á leið B.

Búið er að breyta gönguleið A svo hún þveri ekki yfirlýst hættusvæði. Gott að vera með göngustafi til stuðnings. Áætla þarf 3-4 klst í göngu fram og til baka fyrir meðalvant göngufólk.

Nokkur vindur, 9 m/s og +4°C er á gossvæðinu.

Aðgengi að gosinu er opið til kl. 21:00 í kvöld og svæðið verður rýmt kl. 23:00.

Að öllu jöfnu eru viðbragðsaðilar ekki á svæðinu frá miðnættis til hádegis og mæla því ekki gasmengun né eru til taks ef óhapp verður.
Bannað er að leggja á Suðurstrandarvegi, leggja skal í bílastæði, aðkoma að bílastæði er bæði úr austri og vestri. Gönguleið lengist um allt að 2 km í heild, 1 km hvora leið, áætla má um 40 mín göngu aukalega.
Smellið hér til að sjá mynd/kort af gönguleiðum A og B.

Hér er GPS trakk af gönguleið A (neðri leið á korti). Hún er 4 km. Gengið á hrauni, melum og í fjallshlíðum. Áætla má 3-4 klst á göngu fram og tilbaka fyrir meðalvant göngufólk. Gönguleiðin er stikuð og mjög greinileg.

Hér er GPS trakk af gönguleið B (efri leið á korti). Hún er rúmir 4 km., brött brekka þar sem reipi er til stuðnings. Annars er gengið á hrauni, melum og í fjallshlíðum. Áætla má 2 – 3 klst. fram og tilbaka fyrir meðalvant göngufólk. Gönguleiðin er stikuð og greinileg.

Smellið hér til að sækja kortaforrit í farsímann með gönguleiðinni (fyrir þá sem ekki eiga GPS tæki).
Nauðsynlegt er að vera í góðum gönguskóm, hlýjum fatnaði, vind- og vatnsheldu ysta lagi þar sem veðrið getur breyst skjótt á Íslandi. Sjá ítarlegan útbúnaðarlista hér og smelltu hér til að sjá það allra nauðsynlegasta.
Hér má sjá veðurspá Veðurstofu fyrir gossvæðið.
  Haldið ykkur við hæðar og hryggi, forðist dali og dældir vegna uppsöfnunar á gasi.
 Gasmengun sést ekki og getur verið lyktarlaus. Hún fylgir ekki endilega gosmekki á svæðinu og getur aukist skyndilega.  Ef þið finnið fyrir óþægindum, yfirgefið þá svæðið strax. Smellið hér til að sjá gasspá Belgings og hér til að sjá gasspá Veðurstofu.
 Leitið hiklaust til björgunarsveitarfólks og lögreglu á svæðinu til að fá upplýsingar ef þarf.
  Athugið að nýjar gossprungur geta mögulega opnast með litlum fyrirvara.
  Athugið að símasamband á svæðinu er ekki tryggt og því getur verið erfitt að láta vita af sér. Hafið símann fullhlaðinn. Takið með hleðslubanka.
  Að kvöldi til er nauðsynlegt að vera með höfuðljós/vasaljós og muna að taka með auka rafhlöður.
  Látið vita af ykkur. Setjið t.d. inn ferðaáætlun hér.
Mælt er eindregið gegn því að taka hunda með á gossvæðið. Flúor og gasmengun sem er nokkur á svæðinu fer mjög illa í þá.