Útbúnaður bílsins

  • Dýpt mynsturs á dekkjum verður að vera góð og loftþrýstingur réttur.
  • Öll ljós bifreiðarinnar verða að vera í lagi.
  • Rúður og speglar eiga alltaf að vera hrein, ef þú sérð ekki út sérðu ekki hvar þú lendir.
  • Láttu fara yfir vélina reglulega og farðu með bifreiðina í skoðun á réttum tíma.

Dekk

Dekkin gegn lykilhlutverki við stjórn bifreiðarinnar og því mikilvæg að þau séu í lagi. Mynsturdýpt skal amk vera 1,6 mm og loft í dekkjum þarf að vera rétt til að aksturseiginleikar haldist réttir.

Sé loftþrýstingur ekki réttur eða misjafn í dekkjum veldur það misjöfnu álagi á dekkin, þau slitna ójafnt sem svo veldur hættu við akstur.

Athugaðu að sumar tegundir dekkja eru mjörg harðar og má þar nefna low profile dekk. Þau eru mun hálli nema við hátt hitastig og henta því síður hér á landi.

Bremsur

Ef þú finnur að bifreiðin leitar til hliðar þegar bremsað er skaltu láta líta á þær og að sama skapi þarf að líta reglulega á hemlaklossa. Einnig má hafa í huga að þurfir þú að stíga bremsurnar langt niður þegar hemlað er þarf að athuga hemlavökva.

Ljós

Öll ljós bílsins þurfa að vera í lagi og rétt stillt og er það sérstaklega mikilvægt  á aðalljósum að framan. Kannaðu því reglulega aðalljós, hemlaljós, stefnuljós, númersljós, stöðuljós svo og bakkljós, neyðarljós og þokuljósin.

Rúður og speglar

Allar rúður eiga að vera hreinar, ávallt svo og speglarnir. Hafðu því alltaf nægilega mikið rúðupiss á bílnum og mundu eftir ísvaranum á veturnar. Og ekki spara kaup á nýjum þurrkublöðum.

Vélin

Gott er að láta fara yfir vélina reglulega og þó þú þurfir ekki lengur að fara með þína bifreið í árlega þjónustuskoðun er það góð regla. Einnig er nauðsynlegt að fara reglulega með bílinn í smurningu..

Öryggisbúnaður

Það má segja að öryggisbúnaður gegni tvennskonar hlutverki, annarsvegar fyrir þig og þína farþega og hinsvegar ef þú kemur að óhappi.

Viðvörunarþríhyrningur á að vera í öllum bílum svo og sjúkrakassi. Gott er að hafa endurskinsvesti ef þú ert að skipta um dekk eða sinna öðru í myrki. Slökkvitæki er gott að hafa í öllum bílum og skylda í breyttum bílum.

Einnig er gott að vera með hanska, húfu og annað fatnað ef ske kynni að bifreið bili utan alfaraleiða.