Snjóflóð

Eitt það hættulegasta við ferðalög í fjallendi að vetrarlagi eru snjóflóð en með skynsamri ferðahegðan og réttu leiðarvali er hægt að lágmarka för ferðalanga um snjóflóðasvæði.

Að átta sig á því hvaða svæði eru hættumeiri en önnur er flókið en þó má einfalda það með nokkrum atriðum. Almennt má segja að þar sem skafrenningur safnast fyrir í brattlendi þar sé snjóflóðahætta og við þetta má bæta að flóð falla helst í 30° – 55° halla og því minni viðnám sem snjóalög hafa við hvort annað því meiri hætta á snjóflóðum.

Merki um yfirvofandi snjóflóðahættu

 • Nýfallin snjóflóð er skýrasta dæmið um yfirvofandi snjóflóðahættu
 • Skafrenningur eða áköf ofankoma
 • Vindfleki og merki um að snjórinn sé illa tengdur undirlagi sínu eins og holahljóð, brestir eða sprungur
 • Snögg hitastigsaukning eða hiti yfir frostmarki
 • Rigning
 • Snjóboltar sem rúlla

Leiðarval í fjallendi skipir meginmáli þegar reyna á að forðast snjóflóðahættusvæði en meginreglan er auðvitað sú að dalbotn er hættuminnsti staðurinn. Ef nauðsyn er að ferðast um hættusvæði skal gæta ýtrustu varúðar. Ákveða skal öruggan stað til að stoppa á og síðan fer einn í einu yfir hættusvæðið.

Ef svo illa fer að ferðafélagi lendir í snjóflóði skipta skjót og góð viðbrögð þeirra sem ekki lenda í flóðinu sköpum fyrir lífsmöguleika þess sem í flóðinu lendir

 • Gerið snöggt mat á frekari snjóflóðahættu og metið hvort setja þurfi upp vakt
 • Hefjið strax leit með snjóflóðaýli
 • Ef snjóflóðaýlir er ekki með í för skal merkja strax staðinn sem viðkomandi sást síðast
 • Merkið einnig staðinn þar sem hann lenti í flóðinu
 • Hefjið leit á yfirborði flóðs og merkið alla staði þar sem hlutir finnast
 • Líklegustu staðir eru þar sem flóðið hefur sest til þ.e. í tungunni, við beygjur og við stóra steina
 • Sendið strax eftir aðstoð