Hvers vegna ferðaáætlun?

17. maí, 2013

Eitt af því sem við klifum á þegar við ræðum góða ferðahegðun er mikilvægi þess að gera og skilja eftir ferðaáætlun, jafnvel þó eingöngu sé haldið í dagsferð „á fjallið sem ég fer alltaf á og þekki út og inn“.
Það má segja að í grófum dráttum séu það þrjú atriði sem þrýsta á með gerð ferðaáætlunar.

Í fyrsta lagi tryggir hún að viðkomandi skoði leiðina á korti, spái í vegalengdir, náttstaði ef það á við, hættur og hindranir, leiðarval og annað sem þarf. Þannig verður ekki bara til ferðaáætlun heldur líka verður undirbúningurinn stundum betri.

Í öðru lagi á ætíð að skilja ferðaáætlunina eftir hjá aðstandenda, vini eða öðrum sem getur fylgst með heimkomu og brugðist við ef eitthvað hefur farið úrskeiðis. Haft samband við lögreglu og björgunarsveitir ef á þarf að halda og gefið upplýsingar um ferðatilhögun, viðkomandi persónu og fleira sem getur skiptir meginmáli við leit að týndum aðila.

Í þriðja lagi er gott að skilja ferðaáætlunina eftir hér því þá liggur hún strax fyrir ef slys verður eða ef viðkomandi týnist. Þá er dýrmætum tíma ekki eytt í að finna út hvert leið lá. Hægt er að fara strax í að kanna þá leið sem lá fyrir. Slíkt getur munað öllu.

Látum því ekki hjá líða að útbúa ferðaáætlun.