Ef óhapp á sér stað

Fumlaus og rétt vinnubrögð þarf ef manneskja eða farartæki fellur í sprungu á jökli.

Þegar farartæki lendir í sprungu

 • Þegar bíll festist í sprungu þá getur sprungan legið hvar sem er í kringum hann.
 • Nota skal belti og línu ef stíga þarf út úr bíl eða fara af sleða. Línuna má festa í öryggisbelti bílsins eða í burðargrind sleðans.
 • Til að átta sig betur á því hvar sprungur liggja má nota snjóflóðastöng til að kanna legu þeirra.
 • Þegar bíll festist í sprungu eiga allir að halda kyrru fyrir  í bílnum á meðan svæðið er kannað.
 • Kannið virkni síma og fjarskiptatækja áður en meira er gert og látið vita af vandræðum ykkar.
 • Ekki fara frá til að taka myndir (eða pissa) nema í belti og línu.
 • Jafnvel örmjóar sprungur geta verið yfir 30 metra djúpar.
 • Komið ykkur af sprungusvæðinu. Venjulega eru sömu för til baka öruggust.

Ef einstaklingur fellur í sprungu

 • Hringið í 112 og gefið upp hvað gerðist, staðsetningu, fjölda þeirra sem féllu í sprunguna og aðstæður.
 • Ekki ráðast í björgun nema þekking og búnaður sé meðferðis.
 • Munið að tryggja öryggi þeirra sem á staðnum eru.

Eins og sagt er hér að ofan þarf að tryggja öryggi þeirra sem kanna sprungusvæði og fari til að mynda þannig að dekk falli í sprungu og fara þarf út úr bílnum þarf ákveðinn lágmarksbúnað sem er;

 • Sigbelti.
 • Óteygjanleg siglína, 10-11 mm og að minnsta kosti 30m. löng.
 • Prússikband, GRIGRI eða línubremsu og karabínu.
 • Snjóflóðastöng.
 • Hjálmur er æskilegur

Best er að í hverjum ferðahóp sé aðili eða aðilar sem hafi kunnáttu og þekkingu til að framkvæma að minnsta kosti auðveldari björgun úr sprungu en aldrei skal ráðast í slíkt nema slíkt sé fyrir hendi. Sá búnaður sem þarf til slíks er að lágmarki:

 • Júmmari og fótslingur
 • Broddar
 • Öxi
 • Ísskrúfa
 • Fjórar karabínur og tveir slingar
 • Blökk (t.d. spilblökkin)
 • Hjálmur

Notið svo farartækið til sigfestu og hífinga.