Vélsleðar

Vélsleði veitir mikið frelsi. En í þessu frelsi vélsleðamennskunnar eru einnig faldar helstu hætturnar.

 • Til að geta mætt þeim aðstæðum sem upp kunna að koma þurfa bæði sleði og ökumaður að vera í toppstandi.
 • Tiðarfar hérlendis er oft þannig að vel negldur sleði getur gert gæfumun á ferðalagi.
 • Góð veifa á stöng aftan á sleðanum nýtist vel þegar ferðast er í slæmu veðri.
 • Nauðsynlegir varahlutir þurfa að vera með í för. Aukagangur af kertum og varareim er lágmarksbúnaður.
 • Ökumaður þarf að vera líkamlega í stakk búinn til að takast á við þær aðstæður sem upp kunna að koma.
 • Skyndihjálparkunnátta þarf að vera til staðar.
 • Enginn ætti að fara einn í ferð.
 • Fylgstu með veðurspá, aðstæðum og færð.

Góður ferðafélagi er gulls ígildi, góður búnaður er nauðsyn en hvorugt skiptir nokkru máli ef góð ferðahegðan er ekki viðhöfð þegar ferðast er.

 • Halda skal hópinn en þó ekki aka svo þétt að ef eitthvað hendir fremsta mann geti sá næsti ekki stöðvað.
 • Í slæmu veðri má raða hópnum upp í tvöfalda röð og aka það þétt að menn sjái næsta mann fyrir framan og manninn sér við hlið.
 • Ljóst þarf að vera hver hefur forystu og velur leiðina en allir þurfa þó að vera tilbúnir að grípa inn.
 • Aldrei skal ofmeta eigin getu né tækjanna.
 • Nauðsynlegt er að kunna 100% á staðsetningartækin og nota sannreynda GPS punkta.
 • Betra er að bíða veður af sér í skála eða í fönn heldur en að berjast áfram í vonlausum aðstæðum.
 • Fylgstu með kennileitum og lærðu á landið.
 • Notaðu GPS tækið sem hjálpartæki en aktu ekki „meðvitundarlaus“ um fjöll og firnindi.
 • Hafðu kortið í GPS tækinu passlega „súmmað“ út eða inn, þú verður að sjá hvaða landslag er framundan.
 • Hópurinn ætti að stoppa oft og ræða saman um skipulag , þannig læra menn á hver annan og forðast misskilning.

Áfengisdrykkja og akstur vélsleða á aldrei saman

Búnaður vélsleðafólks

Viðeigandi öryggisbúnaður er jafn nauðsynlegur og sleðinn sjálfur.

 • Hjálmurinn er staðalbúnaður í hvert sinn sem ekið er
 • Brynjur vernda bæði brjóstkassa og bak t.d. ef ekið er fram af hengju eða ofan í gil
 • Fatnaður þarf að vera í lagi, öll lögin þrjú.
 • Sjúkrakassi, svefnpoki, varpoki (bivac) og annar búnaður ef liggja þarf úti
 • Fjarskiptatæki
 • Hin heilaga þrenning á alltaf að vera með, skófla, snjóflóðastöng og snjóflóðaýlir

Þú finnur ítarlegri búnaðarlista hér og hér að neðan má sjá stutt myndband um heilaga snjóflóðaþrenningu.

Slysavarnafélagið Landsbjörg, Ráðhúsinu, Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík Ísland safetravel@safetravel.is +354 570-5929