Eldsumbrot á Reykjanesi

16. ágúst, 2022

Við mælum með að fólk lesi upplýsingarnar hér að neðan varðandi göngu að svæðinu. Vakin er athygli á því að svæðinu getur verið lokað ef varhugaverðar aðstæður skapast. Fylgist með nýjustu upplýsingum hér áður en ákveðið er að leggja í hann.

Gangan að gosinu er um 14km fram og tilbaka með um 300m hækkun. Leiðin getur verið hál og um helmingur hennar er grýttur og erfiður yfirferðar. Mjög bratt er í hlíðunum hjá gosinu. Gangan sjálf getur tekið um 4-5 klukkutíma (sjá kort hér).

Engir innviðir eru á leiðinni og engin klósettaðstaða

Hvaða búnað ætti að taka með að gosinu?

  • Bakpoka
  • Höfuðljós/vasaljós með auka rafhlöðum
  • Gönguskó (helst vatnshelda)
  • Göngustafi-ekki nauðsynlegt en gott að hafa
  • Full hlaðinn síma
  • GPS ef þið eigið
  • Vatnsflösku
  • Heitt vatn, kaffi, te eða kakó ef það skyldi verða kalt
  • Nesti og mat – frekar meira en minna þar sem gangan getur orðið lengri en reiknað var með
  • Ruslapoka, taka á allt rusl með sér til byggða

Hvernig klæðnaður er bestur í göngunni?

  • Grunnlag-Ull eða sambærilegar flíkur, alls ekki bómull
  • Miðlag-ull, flís, dúnn eða önnur sambærileg efni, alls ekki bómull
  • Ysta lag- vatnsheld flík (best er ef efnið andar vel)
  • Hlýir sokkar – ullar- eða göngusokkar – alls ekki bómullarsokkar
  • Vettlingar eða hanskar
  • Hlý húfa
  • Gott er að hafa með aukaföt, t.d. ullarpeysu eða úlpu

Hugsanlegar hættur við að heimsækja eldstöðvarnar:

Mikilvægt er að hafa það í huga að gosið sjálft og aðstæður í kringum gosið geta breyst afar hratt. Þeir þættir sem geta skapað hættu á svæðinu eru:

  • Gasmengun  við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mengunin leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldgossins með vindinn í bakið. Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í lægðum og gas farið yfir hættumörk langt upp í hlíðar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan gosið.
  • Nýjar sprungur geta opnast með stuttum eða engum fyrirvara.
  • Fljótandi hraun getur runnið á ógnarhraða frá jöðrum hraunsins ef þeir brotna. Þá getur verið erfitt að hlaupa á undan straumnum.
  • Hraunið frá gosinu 2021. Hraunið frá gosinu 2021 er með mjög þunnri skel ofan og glóandi hrauni undir og því alveg harðbannað að ganga á því það getur verið verulega hættulegt.
  • Veðrið, það er mjög mikilvægt að fylgjast vel með veðri og veðurspá. hafa ber í huga að gangan er löng og það getur verið allt annað veðurfar á gossvæðinu heldur en á bílastæðinu, eins getur veðrið breyst hratt á stuttum tíma.

Önnur atriði sem þarf að huga að áður en farið er af stað

  • Besta leiðinn að eldgosinu fer eftir vindátt og veðri. Við mælum með að fylgst sé með leiðbeiningum almannavarna og viðbragðsaðila þegar farið er að gosinu.
  • Gangan að eldgosinu er um 7 km löng hækkunin u.þ.b. 300m. Gönguleiðin er yfir erfitt landslag og brekkur nálægt eldstöðinni eru brattar. Gangan getur tekið ca 4-5 klst.
  • T Gangan að staðnum þar sem sést til eldgossins er um 5km löng önnur leið. Best er að leggja bílnum á bílastæði 1 og ganga gönguleið A (Sjá kort hér).
  • Vinsamlegast leggið í merktum bílastæðum, alls ekki leggja bílum í vegkantinum. Þeir sem það gera eiga á hættu að fá sekt.
  • Akstur utan vega er með öllu bannaður.
  • Vinsamlegast fylgið leiðbeiningum almannavarna og viðbragðsaðila á staðnum. Svæðið getur lokað með stuttum fyrirvara.

Kort af svæðinu

Rauða svæðið er hættusvæði þar sem sprungur geta opnast. Fjólublátt er hraunið sem umlykur svæðið.

Að lokum viljum við biðja ykkur að bera virðingu fyrir náttúrunni og náttúruöflunum og fara varlega við það sjá þessa dýrð sem eldgosið er.