Fáðu aðvaranir í SMS

Hjólreiðar gamalt

Hafðu í huga að hér á landi er lítið sem ekkert um sérstaka hjólastíga eða vegi. Þú hjólar því annaðhvort á malbikuðum vegum í misjöfnu ástandi eða á malarvegum.

Kynntu þér því vel þá leið sem þú ætlar til að meta á hvernig hjóli þú þarft að vera en hefðbundin götuhjól eiga afskaplega sjaldan við utan þéttbýlis.

Hjólað á hálendi

Fylgja þarf vegum, slóðum og göngustígum eins og kostur er og hafa í huga að hjól getur hæglega valdið spjöllum á náttúru sé farið óvarlega. Hjólum því aldrei utanvega hversu freistandi sem okkur finnst það vera.

Ekki er vit í öðru en að vera með demparahjól, það er með dempara að framan þegar hjólað er um hálendi Íslands. Ekki eingöngu gera þeir ferðina öruggari heldur einnig ánægjulegri fyrir hjólreiðamanninn.

Almennt

Vegir og slóðar á hálendi Íslands eru ögrandi en um leið afskaplega spennandi til hjólreiða og það útsýni sem blasir við hjólreiðamanni er engu líkt. Einbeittu þér að því að hjóla og stoppaðu frekar oftar til að taka myndir eða njóta þess sem fyrir augu ber.

Mundu að skilja eftir leiðaráætlun hjá einhverjum sem og fyrirmæli um hvenær skuli grípa til aðgerða ef ekkert heyrist frá þér. Kvittaðu í gestabækur á áfangastöðum, það er ekki eingöngu  kurteisi heldur mikilvægt öryggisatriði.

  • Klæddu þig miðað við veður og aðstæður. Skildu eftur ferðaáætlun og farðu aldrei einn til fjalla.
  • Haltu hraðanum innan getu þinnar. Ef þú hefur ekki lengur full stjórn á hjólinu, hægðu þá á þér.
  • Ef eitthvað lítur út fyrir að vera erfitt eða hættulegt þá er það líklega erfitt eða hættulegt.
  • Kynntu þér leiðina fyrirfram og veldu þér leið miðað við getu. Taktu með þér GPS tæki og kort.
  • Gangtu vel um náttúruna. Haltu þig á slóðum og stígum. Haltu á hjólinu yfir viðkvæma staði.
  • Vertu fyrirmynd og hafðu þannig áhrif á annað hjólafólk.