Fáðu aðvaranir í SMS

Rötun

Landakort er lykilinn af því að rata um landið en næst þar á eftir kemur áttavitinn og GPS tækið er svo góður stuðningur við kort og áttavita.

Kunnátta á allt þetta þarf að fylgja en hægt er að sækja námskeið víða.

Áttavitinn

Vegna legu Íslands þarf að leiðrétta skekkju á milli landfræðilegs norðurpóls og segulpóls og kallast þessi skekkja misvísun. Þetta þýðir að þegar þú ert búinn að taka stefnu á korti bætir þú við misvísun áður en þú gengur af stað og á sama hátt fjarlægir þú misvísunina þegar þú breytir göngustefnu í kortastefnu.

Misvísun hér á landi er á bilinu 12°¨- 18° frá austri til vesturs og minnkar um ca 1°á hverjum þrem árum. Nauðsynlegt er að kynna sér misvísun á því svæði sem þú ferðast um en misvísun á Íslandi má meðal annars sjá hér

GPS tæki

Flestir þekkja GPS staðsetningartæki enda orðin innbyggð í marga nýja bíla. Tækin henta þó ekki síður sem hjálpartæki við að finna rétta leið uppi um fjöll og firnindi. Í dag er hægt að fá gott íslandskort í Garmin GPS tæki og fást kortin víða.

Mundu að stilla tækið á WGS84 sem er það „map datum“ sem flest landakort frá Íslandi eru stillt á.

Áður en þú leggur af stað er gott að fá staðsetningar á skálum, tjaldsvæðum, vöðum yfir ár og annað sem gerir ferðina öruggari en þetta má til dæmis fá hjá ferðafélögum hér á landi og víðar.

Mundu að rafhlöður í GPS tækjum duga ekki sérstalega lengi, sparaðu því tækið eða hafðu nóg af rafhlöðum með þér.

Einnig má benda á að í mörgum farsímum er GPS og má því nota símanna til að fá upp staðsetningu ef samband er á svæðinu. Í flestum símum er þetta það veigalítið að eingöngu ætti að nota í neyð en kemur ekki í stað GPS tækis.