Vatnasport er bæði algengt og vinsælt hér á landi enda stórkostlegt að upplifa og skoða náttúruna utan af sjó eða af vötnum svo ekki sé minnst á hið mikla fuglalíf sem þar má sjá.
En eins og svo margt sem er gaman þarf að huga að örygginu enda þarf fumlaus vinnubrögð ef slys verður á vatni eða sjó.
Undirbúningur
- Yfirfarðu bátinn, skoðaðu hvort hann lekur, hvort mótorinn sé í lagi, árarnar í lagi og hvort nægt eldsneyti sé á honum.
- Vertu með farsíma eða annað fjarskiptatæki til að kalla eftir aðstoð ef á þarf að halda.
- Skilja skal eftir leiðaráætlun eða að minnsta kosti að láta einhvern í landi vita hvert skal haldið og hversu lengi eigi að vera.
- Réttur klæðnaður er einnig mikilvægur því þótt lofthiti sé ágætur þá segir það lítið ef einstaklingur fellur fyrir borð.
- Veðurspáin er eitthvað sem alltaf á að kanna ef haldið er út á vatn eða bát hvort sem um lengri eða skemmri ferð er að ræða.
- Áfengi og siglingar eiga alls ekki saman.
Þegar siglt er
- Björgunarvesti eru skyldubúnaður í hvert sinn sem farið er á flot.
- Björgunarvestin verða að passa þeim sem þau nota og er það sérstaklega mikilvægt ef um börn er að ræða.
- Börn eiga aldrei að vera eftirlitslaus við sjó eða vötn og hvað þá ein að sigla bátum.
- Ef þú ert með árabát er nauðsynlegt að árunum sé þannig komið fyrir að þær losni ekki úr keipunum og þú getir misst þær frá þér.