Fáðu aðvaranir í SMS

Skíði og Bretti

Að mörgu þarf að huga áður en lagt er af stað í skíðaferð og hvort sem þú ert á leið á svigskíði, gönguskíði nú eða jafnvel fjallaskíði hafðu þá þessi atriði í huga:

  • Að þú sért með réttan útbúnað, nesti og aukafatnað.
  • Að skilja eftir ferðaáætlun, til dæmis hér á Safetravel.is
  • Að hafa með þér fjarskiptatæki sértu á ferð utan alfarasvæða.
  • Að þekkja snjóflóðahættu, sérstaklega ef þú ert á ferð utan troðinna svæða.

Á Íslandi eru fjöldi góðra skíðasvæða sem velja má úr til þess að stunda þessa frábæru fjölskylduíþrótt.

En eins og alltaf er betra að hafa nokkur atriði í huga til að tryggja farsælt og slysalaust ferðalag.

  • Börn eiga alltaf að vera með hjálm og auðvitað fullorðnir líka
  • Góður fatnaður, lagskiptur, eykur ánægjuna. Kíktu á búnaðarlistann okkar
  • Hafðu með góðan og næringarríkan mat og orkuríkt nasl
  • Farðu eftir umferðarreglum í brekkunum

Svigskíðafatnaður er að miklu leyti svipaður almennum útivistarfatnaði og byggist því upp á lagskiptingu svo fækka megi fötum eða bæta við eftir veðri og aðstæðum.

Innsta lagið, nærfatnaðurinn skal vera úr ull eða góðum gerfiefnum og einangra þótt hann sé rakur. Miðlagið getur verið úr ull eða flísefnum og ysta lagið veitir svo skjól gegn vatni og vindi.

Aldrei skal fara út fyrir troðin svæði á skíðasvæðum nema hafa til þess kunnáttu og vera rétt útbúinn, til dæmis með snjóflóðaýli og þekkja til
snjóflóðahættu.