Það er auðvelt að gleyma sér í íslenskum sundlaugum. Hafðu þó alltaf í huga að séu börn með þér berð þú ábyrgð á þeim.
Börn yngri en tíu ára eiga alltaf að vera í fylgd fullorðins synds einstaklings og aldrei mega fleiri en tvö börn vera undir umsjón sama aðila.
Ekki er ætlast til þess að börn séu í dýpri helming sundlauga enda eru í flestum sundlaugum vaðlaugar eða barnalaugar og það jafnvel fleiri en ein.
Hafðu einnig í huga að í mörgum sundlaugum úti á landi er ekki myndavélakerfi heldur einungis sundlaugarvörður sem fylgist með öllum.
Náttúrulaugar
Náttúrulaugar eru yfirleitt í umsjón land- eða skálavarða á stöðunum en sjaldnast vaktaðar sem slíkar. Börn ættu því aldrei að vera í þessum laugum nema undir stöðugri umsjón fullorðinna.
Vatnið í þessum laugum er misheitt. Þótt yfirleitt sé reynt að stjórna rennsli þeirra skaltu ekki stökkva út í laugina án þess að kanna hitastigið. Að sama skapi getur vatnið verið misheitt eftir því hvar þú situr í lauginni.
Náttúrulegar laugar eru ekki ætlaðar til þvotta enda oft erfitt eða vonlaust að þrífa þær. Að sama skapi á lega í náttúrulaug og áfengi ekki saman, laugin ein og sér er nægt vímuefni kryddað með íslenskri náttúru allt í kring.
Sjósund
Hitastig sjávar hér við land er frekar lágt eða á bilinu 2 – 8° C svo ráðlegt er að fara hægt af stað og helst í fylgd vanra sjósundsgarpa.
Straumar eru töluverðir við Ísland enda eyja á miðju úthafi sem undirstrikar enn að skynsamlegt er að hafa vana aðila með í för.